Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: drykkir

Líkjör með kaffiklökum og ekki neitt fyrir 12.000 kall

Ég er alveg komin með upp í kok á að fara í matvörubúðir því ég man svo vel þegar mér blöskraði það að þurfa að borga 3500 kall fyrir ekki neitt, og enn betur man ég eftir því þegar ég borgaði 7000 kall fyrir ekki neitt.  Það er eiginlega bara í móðu þegar ég borgaði 10.000 kall fyrir ekki neitt því það tímabil stóð svo stutt yfir því það fór strax í 12.000 kall fyrir ekki neitt.

Nú eru málin þannig að við erum að fara hægt og rólega í 17.000 kall fyrir ekki neitt, því stundum borga ég 12.000 og ef ég bæti við flösku af hlynsýrópi, pakka af 70 % súkkulaði, einum kassa af grænu tei og 3 avocadóa, fancy fancy… þá kostar það 17.000.

Svo kom ég heim áðan og ætlaði að fara yfir þennan 12.000 kr strimil því í þetta sinn keypti ég EKKERT, þá var ég með rangan strimil.  Hef gripið strimil einhvers annars.  Hann hljóðaði upp á 7000 krónur.  Það var nú ekkert gæfulegri strimill.  Fáeinir hlutri en það gaman að rúlla yfir hann og sjá hversu ólíkt maður verslar miðað við marga aðra.  Þarna mátti sjá frosnar pizzur, daloon vorrúllur og beikon lifrakæfu 🙂

En það sem ég fæ fyrir minn 12.00 kall í dag eru drykkjarvörur eins og trópí og mjólk, bleyjupakki, ab mjólk, egg og smjör.  Það er ekkert mikið meira.  Ég keypti engan mat, eins og fisk eða kjöt, kartöflur eða grænmeti.  Aldrei kaupi ég unnar vörur og tilbuin mat.  Ekkert bruðl, bara rán um hábjartan dag.

Snökt snökt…

En á léttari nótum þá er hér uppskrift af ferlega góðum drykk sem sómir sér vel eftir góða máltíð.

Líkjör með kaffiklökum

 

 • Líkjör, t.d Amarula eða Bailey’s
 • Gott kaffi

 

Hellið upp á eitthvað gott kaffi.  Leyfið því kólna og setjið það svo í klakabox og inn í frysti.  Þegar klakarnir eru tilbúnir setjið þá út í glas af líkjör.  Líkjörinn helst kaldur og ekkert vatnssull þegar þeir bráðna.

 

Advertisements

Heimagerð jarðaberjamjólk – jarðaberjasíróp

Eitt af því sem hefur dottið út af innkaupalistanum hjá mér er kókómjólk.  En það er ekki þar með sagt að ég ætli að hætta að drekka kókómjólk, ég ætla bara að búa hana til sjálf.

Þegar ég var að googla “homemade chockolate milk” þá datt ég niður á jarðaberjasýróp til að gera jarðaberjamjólk.

Þar sem ég átti jarðaber í frysti og uppskriftin einföld réðst ég í verkið.  Og hún sló í gegn.

Það er svo hægt að nota sýrópið í fleira en mjólk, og um að gera að nota jarðaberin sem eru sigtuð frá t.d ofan á ís, pönnukökur eða skyr eða það sem ykkur dettur í hug.  Þau eru bara sælgæti.

jarðaberjasíróp

Jarðaberjasíróp

 • 1 bolli (2.4 dl) frosin jarðaber
 • 1/2 bolli sykur
 • 1/2 bolli vatn
 • 1/4 tsk vanilla (má sleppa)

jarðaberjasíróp

Sjóðið allt ofantalið í potti í 10 mínútur.

jarðaberjasíróp

Sigtið jarðaberin frá.

Hellið sírópinu í lokað ílát ef þið viljið geyma það inn í ísskáp.

jarðaberjamjólk

Jarðaberjamjólk

 • Jarðaberjasíróp
 • Mjólk

Það fer eftir smekk hversu sæta og bragðmikla þið viljið hafa mjólkina. Prófið ykkur áfram.  Í eitt lítið glas notaði ég um 2-3 msk af sírópinu.

Jóladagatal Soffíu -18 dagar til jóla og Lamumba

Jóladagatal…18

Þessa fallegu stjörnu rakst ég á á pinterest.com.  Það fylgdi ekki slóð með henni, en svo virðist sem einhver er að selja svona á Etsy vefnum. En það mætti gera svona sjálfur og ég væri jafnvel til í að gera svipaða pæling nema jólakúlu í þrívídd.  Það væri verðugt verkefni…

stjarna

Eitt af því skemmtilegasta sem ég gerði í vetrarkuldanum um jólahátíðina þegar ég bjó í Kaupmannahöfn var að fara á Sporvagninn, hamborgarastað sem var innréttaður eins og sporvagn og er við Grábræðratorg, og fá mér Lamumba.  Þetta fékk maður með sér í take away, og rölti um götur miðbæjarins á meðan maður gæddi sér á Lamumba sem er heitt kakó með koníaki…

lamumba kakó

Lamumba

 • Heitt kakó
 • Koníaksslurkur
 • Þeyttur rjómi

Setjið skvettu af koníaki út í heitt kakó, toppið með þeyttum rjóma.  Setjið jafnvel í pappamál eða “to go” bolla og takið með ykkur út í göngutúr. 

Krækiberjasafi

Ég ætlaði nú að vera búin að skrifa um tilraunir mínar við að gera krækiberjasafa. Þar sem ég bý í götu sem kennd er við ber og landið þakið krækiberjum þá er ég dugleg við að tína þau með haustinu og enda með ansi mörg kíló af krækiberjum.

Ég vildi bara fá safann frá ferskum berjunum og ekki bæta neinu út í.  Ég maukaði þau á þrjá vegu til að sjá hvað væri fljótlegast og besta nýtnin.

Fyrst prófaði ég djúser sem maður festir á Kitchen aid, mjög seinlegt, en virkar vel.

Svo setti ég þau í djúser, fékk næstum helmingi minna magn þannig.

Að lokum skellti ég lúku í blender með smá vatni og maukaði, bætti svo við enn fleiri berjum og maukaði.  Fljótlegt og fékk helling af safa þannig.  Ég sigtaði bara frá hýðið af berjunum.

krækiberjasafi

Þannig að besta aðferðin var að skella þessu í blenderinn.  Svo setti ég næsta skammt af berjum í blender með ausu af krækiberjadjúsinu sem ég gerði fyrst.  Þannig að það fór bara smá vatn þegar ég maukaði fyrsta skammtinn.

Svo frysti ég þetta í litlum formum og klakaboxum og skelli 1-2 klökum í smoothie-inn minn á morgnana.  Hollusta í hverjum sopa.

Sólarlag í Hvalfirði og nýji drykkurinn okkar sem gestir og gangandi fá að smakka

liljur

Það er Páskadagur hér í sveitinni þegar þetta er skrifað og hér snjóar og það er hífandi rok og skítakuldi. Stundum held ég að þakið ætli af húsinu, er þetta ekki komið gott?

En, þá er lítið annað að gera en að opna góða rauðvínsflösku og skrifa niður allar góðu uppskriftirnar sem hafa orðið til yfir páskana.

Föstudagskvöldið var stórskemmtilegt. Við ákváðum að elda sinn hvorn smáréttinn, og til að fá smá krydd í eldamennskuna þá urðum við að nota hráefni sem hinn aðilinn lagði til. Ég lét kærastann nota bulgur og grænan aspas í dós og hann lét mig nota kjúklingabringu, sykur og sólblómafræ.

Kærastinn gerði dúndurgóðan rétt, í anda saumaklúbbs-aspasréttina. En í staðin fyrir brauð vorum við með bulgur.

(Ég steingleymdi að mynda þessa rétti, vandræðalegt!)

Sólarlag í Hvalfirði

 • Aspas í dós
 • Bulgur, soðnar skv leiðbeiningum
 • Tómatar
 • Kartöfluklattar
 • Hvítlaukur
 • Ostur
 • Salt
 • Pipar

Kartöflubrauðið rifið niður, tómatar skornir smátt, hvítlaukurinn pressaður. Bulgurnar settar í botninn á eldföstu móti og bleyttar aðeins með safa úr aspasdósinni, restinni dreift yfir og rifinn ostur stráður yfir allt.

Í þessu tilfelli var afgangur af kartöfluklöttum, það má algjörlega sleppa þeim, eða t.d rífa niður soðnar kartöflur og nota í réttinn.

Þetta var bakað í ofni við 200°c í korter eða svo.

fylltir tómatar

Ég þurfti að nota kjúklingabringu, sykur og sólblómafræ og bjó til úr því fyllta tómata með virkilega góðum sumarlegum drykk þrátt fyrir að það hafi ekkert gefið til kynna að sumarið væri komið..

Fylltir tómatar

 • Tómatur
 • Kjúklingabringa
 • Rúsínur
 • Sólblómafræ
 • Soðnar bulgur
 • Lime
 • Engifer
 • Hvítlaukur
 • Mynta
 • Smjör

Ég skar í tvennt tómat og skóf innan úr honum. Setti þá í eldfast fat og inn í ofn á meðan ég gerði eftirfarandi:

Ég setti soðnar bulgur í pott með smjöri, myntu, rúsínum, sólblómafræjum, það sem var inn í tómatnum og hvítlauk og lét “sjóða saman”.

Á pönnu steikti ég kjúkling með hvítlauk, lime, salti og pipar og blandaði honum svo við bulgurnar.

Ég fyllti tómatana í eldfasta fatinu með bulgur-kjúklinga mixinu, dreifði smá rifnum ost yfir og setti inn í ofn á 200°c í smá stund, eða þar til osturinn var fallega bráðnaður.

Ég bar tómatana fram á hvolfi og skreytti með myntu sem ég skar til í hjarta. Rómó…

páskaliljur

Páskaliljurnar horfa út um gluggann og skilja ekkert í þessu íslenska sumarveðri.

Með þessu bar ég fram drykk sem var með svipuð element og rétturinn, þ.e lime og myntu til að vinna með bragðinu í réttinum. Einnig notaði ég eitt af því hráefni sem ég varð að nota, þ.e sykurinn.

Þessi drykkur verður á boðstólnum fyrir gesti og gangandi í sumar og heitir:

Velkomin í Hvalfjörðinn

 • Sykur
 • Lime
 • Fersk mynta
 • Ferskt engifer
 • Sódavatn
 • Hvítvín
 • Skvetta af Superberries djúsi frá the berry company.

Maukið saman myntu, sykur, lime og engifer, svipað og ef þið væruð að gera Mojito. Hellið saman við það hvítvíni, smá sódavatni og skvettu af berjadjúsi. Það mætti nota hvaða berjadjús sem er, Pomegranate djús væri eflaust rosalega góður líka.

Mánudagur? Romm með engifer og myntu

Er mánudagur í þér? Þá mæli ég með þessum, hann hristir vel í manni og er frábær mánudagsdrykkur, sérstaklega í þessu óvorlega veðurfari. Hann er stútfullur af engifer sem er víst svo hollt, ekki er það nú verra.

Það kannast flestir við Mojito, en hér er hann spæsaður upp með engifer og nóg af því. Það er rosalega gott. Og fyrir þá sem vilja sleppa áfengi þá er það líka hægt, setið þá bara meir af sódavatni…

engifer drykkur

Mojito með engifer (fyrir 1)

 • 1-2 stilkar fersk mynta
 • 2 cm af fínt rifinni ferskri engiferrót
 • 1 tsk sykur
 • 1 hluti af sódavatni
 • 1 hluti ferskur lime safi
 • 2 hlutar ljóst romm

Merjið myntuna, sykurinn og engifer saman í morteli eða í glasi með skeið ef þið eigið ekki mortel. Blandið saman vökva og bætið myntu-engifers pestóinu við og hrærið vel saman.  (1 hluti getur verið t.d ca 1 skotglas)

Vín og grín með Top gear gaurnum

Ég fann skemmtilega þætti á youtube þar sem breskur vínsnobbari og James frá Top gear sem er andstæðan við vínsnobbarann keyra um Frakkland og smakka vín.

vín

Þetta eru ágætir þættir, vín og grín.

Þættina má sjá hér.

Túnfisk tataki, Cava og Beaujolais

Þriðji rétturinn í matarboðinu var Túnfisk tataki. Með því bar ég fram Cava og Beaujoulais. Bæði vínin voru að dansa með soya sósunni.

cava

Cava er dásamlegt með sushi, ég mæli með að þið fáið ykkur Cava næst þegar þið fáið ykkur sushi. Ef þið eldið sushi heima prófið að bera fram með því Cava og Beaujolais, skemmtileg tilbreyting og skemmtun fyrir bragðlaukana.

túnfisk tataki

Túnfisk tataki

 • Ferskur túnfiskur
 • Sesame fræ, svört og ljós
 • Salt
 • Pipar

Hitið þurra viðloðunarfría pönnu. Saltið og piprið fiskinn. Lokið fiskinum á öllum hliðum með því að steikja hann í 10 – 20 sekúndur á hverri hlið.

Skellið því svo í skál í hálfa mínútu sem hefur verið fyllt með ísköldu vatni og kannski nokkrum klökum.

Þerrið fiskinn, makið á hann sesame fræjunum og setjið í álpappír. Það mætti salta og pipra kjötið aftur á þessu stigi ef þið viljið áður en þið pakkið því inn í álpappír.

Geymið í kæli eða frysti í nokkra klukkutíma. Skerið í þunnar sneiðar. Berið fram með soya, fersku engifer, vorlauk og wasabi.  Í soyasósuna setti ég svo eina radísuspíru, for presentation…

Tataki nautalundir

Tataki er japönsk matreiðsla. Kjöti eða fisk er lokað á þurri pönnu, örsnöggt og svo skellt í ísvatn til að stöðva eldunarferlið. Því næst er því pakkað í álpappír og skellt inn í ísskáp þar til þess er neytt. Einnig má setja það í frysti.

Svo er það skorið í þunnar sneiðar og borið fram með t.d ponzu sósu.

Ef þið viljið ná mjög þunnum sneiðum þá er sniðugt að frysta það, það auðveldar skurðinn. Þetta var réttur tvö í matar og vín boðinu, sem ég fjallaði um í síðustu færslu.

Ég ákvað að nýta mér eldunaraðferð Tataki, og bar kjötið svo fram með hvítlaukssósu.

Ég hef verið að leita að litlum diskum til að bera fram smárétti sem þennan.  Í Ikea fann ég svo diska sem koma vel út, en þá fann ég í kertastjakadeildinni. Þetta eru diskar undir kerti sem sagt.

nauta tataki

Nauta Tataki með rótsterkri hvítlaukssósu

 • Nautalund (ca 50 g á mann sem forréttur)
 • Salt
 • Pipar

Hitið þurra viðloðunarfría pönnu. Saltið og piprið kjötið  Lokið nautinu á öllum hliðum með því að steikja það í 10 – 20 sekúntur á hverri hlið. Skellið því svo í skál í hálfa mínútu sem hefur verið fyllt með ísköldu vatni og kannski nokkrum klökum.  Þerrið kjötið og setjið í álpappír.  Það mætti salta og pipra kjötið aftur á þessu stigi ef þið viljið áður en þið pakkið því inn í álpappír.  Geymið í kæli eða frysti í nokkra klukkutíma, eða lengur.

Ég setti kjötið í ísskáp í sólarhring. Meirara hefði nautið ekki getað orðið.

Hvítlaukssósa

 • 3-4 msk sýrður rjómi
 • Nokkur rif af hvítlauk (magnið fer eftir styrkleika hvítlauksins og smekk)
 • Salt
 • Pipar

Pressið hvítlaukinn, ég mæli með að nota vel af hvítlauk, þannig að það sé kraftur í henni.  Ekki vera hrædd við að prófa að hafa hana vel sterka.

Ég pipraði extra yfir lundina áður en ég bar hana fram.

vín

Með þessu bar ég fram  Peter Lehmann of the Barossa, Shiraz, Ástralía 2008 og Cono sur, Pinot Noir, Chile 2009.  Shirazinn var mjög góður með kjötinu, Pinot noir var meira söturvín en samt alveg ágætt engu að síður, fer eflaust betur með léttari mat, t.d túnfisk.

Heimagert límonaðe getur bjargað ekki besta rauðvíni í heimi

Ég var að drekka rauðvín með vinkonu minni úr belju sem okkur þótti ekki sérlega gott. Þannig að við brugðum á það ráð að blanda því saman við límónaðe úr nýkreistum sítrónum.

Þá lifnaði rauðvínið við og við sötruðum á yndislegum svaladrykk, sem er ekki ósvipaður sangríu eða Tinto de verano.

IMG_6148

Límonaðe

 • 2 dl sykur
 • 2 dl vatn
 • 2 dl sítrónusafi, kreistur úr ferskum sítrónum.
 • 700 ml af vatni eða eftir smekk, til að blanda út í að lokum
 • Gerið sýróp með því að hita sykur og vatn í potti þar til sykurinn er bráðnaður.
 • Kreistið safa úr 4-6 sítrónum (u.þ.b 2 dl)

Setjið sítrónusafann í könnu og bætið sykurblöndunni (sýrópinu) saman við.

Hrærið þessu saman og bætið við vatni til að þynna þetta út, það fer eftir smekk, hversu bragðmikið þið viljið límonaðið, smakkið ykkur bara til.

Kælið í klukkustund.

Berið fram með klökum og sítrónusneiðum, og ef til vill góðri slettu af ekki besta rauðvíni í heimi.

%d bloggers like this: