Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Samlokur

Beef dip og ólífuolíuskandallinn

Hafið þið ekki heyrt um ólífuolíu skandalinn hér fyrir nokkrum árum, þar sem extra virgin ólífuolía er ekki hrein ólífuolía heldur oftar en ekki bara ódýrasta olían sem finnst (ekki einu sinni ódýrasta ólífuolían, bara hvaða olía sem er) blönduð við jafnvel annan flokks ólífuolíu og með litarefni og bragðefni.

Það er talað um að um 70% af öllum Extra virgin ólífuolíum í hillum stórmarkaða séu ekki 100%. Ég var að reyna að googla nokkrar tegundir og las á einhverju bloggi að Olitalia sé ekki með hreina ólífuolíu. Það á nefnilega líka við um FLESTAR af þeim olíum sem finnast í búðum hér heima.

Hér er listi yfir ólífuolíur sem eru ekki 100% og þær sem stóðust prófið.  Allar þær sem féllu á prófinu fást hér heima, en ég kannast ekki við neina af þessum sem stóðust það.

Hér er rannsóknin og niðurstöður.

Svo var skrifuð var heil bók um málið sem væri gaman að lesa

Hér er smá lesning en ég held það sé ekki hægt að finna betri upplýsingar um ólífuolíu á einum stað en hér

Og fyrst ég er að henda inn öllum þessum linkum á annað borð þá væri gaman að kíkja nánar áþessa síðu.

Ef þið viljið góða ólífuolíu þá mæli ég með Frú Laugu. 

Ég treysti þeim. Þeir eru með stóran dúnk af lífrænni olíu frá Sikiley sem mér finnst mjög góð.  Þá kemur maður með sína eigin flösku sem maður fyllir á.

Það eru margir þekktir skandalar í matarheiminum. Hér er búið að taka þá saman í eina bók. Það er bara sorglegt að geta ekki treyst fólki til að gera hlutina samviskusamlega.

Ég tala nú ekki um þegar verið að vega að ungum börnum eins og þegar upp komst um mjólkurformúluna í Kína. Þar hafði einhverjum skít verið bætt við formúluna svo hún virtist próteinríkari. Börn dóu eða urðu mjög veik.

Það er bara ekkert skrítið að maður er skeptískur á mat og kaupir ekki hvað sem er þegar allt snýst um að græða og græða meira svo það bitnar á framleiðslunni.

En á léttari nótum…

GLEÐILEGT SUMAR!

blom

Ég ætlaði að gera hefðbundna beef dip samloku um daginn en var ekki með nógu gott kjöt til þess. Það þarf alvöru roast beef þar.

Þannig að ég blandaði saman tveim uppskriftum því ég var að elda flatan klump sem á það til að verða svolítið þurr við ofneldum. Hann hentar víst ekki vel í ofninn, en það er mælt með þvi að steikja hann á pönnu.

Þannig að ég kryddaði hann frekar spicy og endaði svo á að sjóða hann aðeins í soðinu eftir að ég skar hann í þunnar sneiðar. Þetta endaði sem sagt á því að vera ágætis kjöt og það sem eftir var daginn eftir var étið upp til agna af nautabóndanum sjálfum.

beef dip

Hálfgert Beef dip

  • Klumpur
  • Oregano, 2 msk
  • Heitt pizzakrydd frá pottagöldrum, 1 msk
  • Salt, eftir smekk
  • Pipar , eftir smekk

Nuddið helminginum af kryddblöndunni á kjötið, lokið því á þurri pönnu á öllum hliðum.

Setjið kjötið i ofnskúffu.

Eldið í 20 mín við 220°c. Lækkið hitann niður í 200°c og bætið við 1 l af vatni og rest af kryddblöndu í ofnskúffuna.

Skerið kjötið þunnt.  Setjið soðið úr ofnskúffunni í pott og sjóðið kjötið í soðinu í smá stund ef kjötið er þurrt.

Berið þunnt skorið kjötið fram með soðinu, ítölsku sub brauði, papriku sem þið hafið skorið i strimla og soðið í korter. og jalapeno.

beef dip

Mig laaangar í eitthvað…

Stundum er maður bara ekki smurður.  Ég á rauðrófur, epli og avacado. Og ég get ekki gert upp við mig hvort það sé eitthvað sem væri að dansa eða ekki.

Svo ég er að vandræðast með hvort ég eigi að elda eitthvað með þessum rauðbeðum í kvöld eða bara sleppa því.

Voðalega getur maður verið andlaus stundum.  GEISP.  Og núna langar mig bara allt í einu í pizzu, ekki að ég nenni að fara út á þá eldamennsku samt eitthvað frekar og ekki panta ég pizzu, hef ekki gert það í mörg ár.

Það verður fróðlegt að sjá hvar eldamennska kvöldsins endar.  Ég ætla að standa upp og láta vaða á eitthvað.  Ég er reyndar búin að opna ísskápinn svona fimm sinnum með það í huga að fara að elda eitthvað.  Eitt GEISP áður og nú stend ég upp. Og nú er ég staðin upp…

To Be Continue…

Þetta var nú ekki svooo merkilegt sem ég endaði á að fá mér, enda seint hægt að segja að það hafi rokið úr rassinum á mér þegar ég stóð upp til að malla  eitthvað.

Úr varð að ég setti beyglu í ofninn.  Nýbakaða beyglu sem ég gerði fyrr í dag.  Ég smurði hana með þeyttum rjómaostinum, reif yfir hana ost og lagði nokkra jalapenos sneiðar ofan á ostinn.  Með þessu var vel sterk heimagerð salassósa. Mig svíður enn í varirnar.  I LOVE IT.

beygla

Beygla með jalapeno og rjómaosti

  • Beygla
  • Rjómaostur (eða þeyttur rjómaostur)
  • Rifinn ostur
  • Jalapenosneiðar niðursoðinn i krukku

beygla

Smyrjið beyglu með rjómaosti.  Dreifið vel úr rifnum osti yfir.  Leggið jalapeno sneiðar ofan á ostinn.  Ef þið viljið ekki hafa þetta os sterkt þá má skera um eina jalapeno sneið fyrir hverja beyglu smátt og blanda við rjómaostinn áður en honum er smurt á beygluna.

beygla

Setjið í ofn á grill þar til osturinn bráðnar.

þeyttur rjómaostur

“Þeyttur” rjómaostur en þó ekki þreyttur

  • Rjómaostur, ein lítil askja
  • 3 msk mjólk

Hrærið saman með töfrasprota.

Ég er líka að velta því fyrir mér að taka smá heimagerðan berjasorbet úr frysti og hræra við ostinn og bera það fram með amerískum pönnukökum.

Eldað á einni hellu – jólin 2011

Ég er með forláta ofn, svona lítinn sumarbústaðarofn.  Eini gallinn er sá að ef ég kveiki á hellu þá get ég ekki kveikt á ofninum líka eða öfugt og bara haft eina hellu í einu. Þetta stelur allt orku hvort frá öðru. Svo þannig eldaði ég allar jólamáltíðirnar.  Á einni hellu, eða með ofninn á.  Allt til skiptis.  Með góðu skipulagi gekk þetta stórvel og maturinn var betri en nokkru sinni fyrr.

Ég ætlaði að vera búin að tengja nýju gashellurnar mínar, en það er ekki á allt kosið þegar framtaksleysið tekur völdin…

hangikjöt

En það var matreitt tvíreykt hangikjöt frá bónda hér í sveitinni með öllu tilheyrandi og svo var það hamborgarahryggur fyrir tvo á jóladag, bara til að geta gert þessar rosalega góðu samlokur daginn eftir.

hamborgarahryggur

Það sem þarf er gott brauð sem hentar vel í panini grill, ost og Dijon sinnep, já og auðvitað sneiðar af hamborgarahryggnum, skornar eins þunnt eða þykkt og ykkur hentar.  Flóknara þarf það ekki að vera frekar en þið viljið.

samloka með hamborgarahrygg

Samloka með hamborgarahrygg

  • Hamborgarahryggur
  • Ostur
  • Dijon Sinnep
  • Gott brauð

Skerið brauðið í sneiðar, smyrjið þær með Dijon sinnepi.  Setjið á milli þær sneiðar af hrygg og ostsneiðar.  Ég notaði Gouda brauðost og 3 mm kjötsneiðar.

Ef þið eigið ananassneiðar frá kvöldinu áður þá mætti henda þeim á, eða tómatsneiðum til að ferska þetta upp. Endalausir möguleikar en ég ákvað í þetta sinn að hafa þetta einfalt og það klikkaði ekki.

Einnig mætti nota afgang af hryggnum til að gera Kúbu samloku.

Ég kem með brauðuppskriftina sem ég notaði hér á morgun.  Það tekur næstum sólarhring að gera þetta brauð en það er biðarinnar virði.  Ef þið viljið gott brauð sem líkist Ciabatta þá er héreinföld uppskrift, sem er bara pizzadeig formað í brauð og ekki hnoðað með of miklu hveiti.

Góða skemmtun á þessum síðasta degi ársins. 

GLEÐILEGT ÁR

fireworks

Jóladagatal Soffíu – 12 dagar til jóla

Jóladagatal…12

Í gær vorum við með jólaglögg fyrir sveitunganágranna.  Það var gaman og góður matur og að sjálfsögðu gott glögg.

Á boðstólnum var meðal annars:

pate

Hreindýrapate og meðlæti

  • Hreindýrapate (fæst í flestum matvöruverslunum)
  • Súrar gúrkur
  • Steikt beikon
  • Sveppasósa
  • Rúgbrauð

Sveppasósan er sveppir, steiktir upp úr smjöri og hvítlauk.  Slatti af rjóma og smá sósujafnara.  Saltað og piprað.

Allt borið saman á borð, fáið ykkur rúgbrauð, setjið á það kæfuna, gúrku, beikon og sósu.

Sérrí sveskjur með beikoni

  • Sérrí
  • Sveskjur, þurrkaðar
  • Beikon
  • Valhnetur
  • Múskat

Ég er ekki með nákvæma uppskrift af þessum rétti, en málið er að leggja þurrkaðar sveskjur í sérrí yfir nótt.  Veltið valhnetubrotum upp úr múskati.  Stingið einu broti í hverja sveskju.  Vefjið utan um hana beikoni.  steikið á pönnu.  Það má einnig elda þetta í ofni.  Jólalegur réttur og mjög bragðgóður.

lax

Laxasamlokur

  • Fransbrauð
  • Reyktur lax
  • Rjómaostur
  • Graslaukur
  • Steinselja

Smyrjið brauð með rjómaosti og setjið laxinn ofan á, dreifið yfir smátt skornum graslauk.  Gerið samloku og skerið í þríhyrninga.  Smyrjið rjómaosti á endann á hverjum þríhyrningi og þrýstið honum í steinselju sem þið skerið mjög smátt.

panettone

Panettone var á borðum, mjög gott ítalskt jólabrauð. Það væri gaman að gera svoleiðis við tækifæri.  Ég á eftir að googla allt um Panettone.

Einnig var boðið upp á óheyrilega gott ris a la mande sem ég er ekki búin að fá uppskrift að, ætla að fá einkakennslu í gerð þess.  Svo voru tartalettur með hangikjöti sem slóu í gegn.

Og svo svona til að minna mann á að einfaldleikinn svíkur engan þá kom einn gesturinn með rækjusalat og ritz kex sem gerði mikla lukku og var étið upp til agna.

Þessa fann ég netinu, svoldið sætt.

jólaherðatré

Quinoa salat með avacado

Quinoa er voða hollt segja þeir, en mér finnst það líka voða gott. Það má nýta það á ótal vegu. Ég fékk mér einfalt quinoa salat í hádeginu. Salatið var fremur einfalt. En oft er einfaldleikinn bestur þannig að hráefnið sem maður er að nota njóti sín, eins og í mínu tilfelli, avacadoinn…með fullt af salti..mmmm…

quinoa salat

Quinoa salat með avacado

  • 1 bolli quinoa, soðið
  • 1 dós mixed beans
  • 1 avacado
  • 1/2 dl vorlaukur
  • Smá fetaostur

rauðbeðudressing

Rauðbeðudressing

  • 1 rauðbeða, soðin
  • Hálf dós sýrður rjómi
  • 1-2 hvítlauksrif
  • Smá salt
  • Smá kreist úr hálfri lime
  • 2-3 tsk sýróp

Allt maukað saman í blender eða með töfrasprota, smakkið til með lime, sýrópi og salti.

quinoa í pitabrauði

Svo mætti setja setja salatið með dressingu í heimagert pítubrauð. 

pítubrauð

Pítabrauðið hér er pizzadeig sem ég flatti út og steikti á pönnu á hvorri hlið.

Samloka samlokanna

Hér er lítil myndasaga af ótrúlega góðri samloku. Þetta er ein af þessum samlokum sem ég hef gert öðru hvoru í háa herrrans tíð en þetta var í fyrsta sinn sem ég gerði nokkurs konar ciabatta brauð sjálf, og það átti vel við innihald lokunnar.

Hér er sagan á bak við þessa samloku og uppskrift af nautahakki og sósunni:Focaccia samloka með nautahakki

Bakið Ciabatta eða annað gott brauð.

ciabatta

Skerið það til helminga eins og hér er sýnt.

ciabatta

Leggið þau með skurðinn upp.

ciabatta

 Setjið á þau steikt nautahakk, sinnepssósu og ost.

ciabatta

Leggið þau saman, með skurðinn að utanverðu.

ciabatta

Ef ykkur finnst jalapeno eða chile gott, þá mæli ég með svoleiðis, ferskum eða niðursoðnum.

ciabatta með nautahakki

 Grillið á panini grilli þar til osturinn bráðnar.  Ef þið eigið ekki panini grill þá má skella þessu í ofninn

ciabatta með nautahakki

ciabatta með nautahakki

Berið fram með rauðvíni, hvítvíni eða ísköldum bjór.

ciabatta

Ciabatta brauð er ekki ósvipað pizzadegi en maður þarf að búa til starter, og svo hnoða það vel og vandlega en hafa deigið samt fremur blautt.

Ef þið nennið ekki að dudda of við þetta þá mæli ég með því að:

1. Þið gerið nákvæmlega eins og þegar þið eruð að gera pizzu.

2. Látið deig hefast í klst og skellið því svo á smjörpappír á bökunarplötu án þess að eiga of mikið við það, nema til þess að bæta við smá fræjum, t.d þriggjakorna blöndu eða sesame fræjum ef þið viljið. Ég mæli sko með því!

3. Mótið úr deiginu brauð sem er í laginu eins og ciabatta brauð ( þ.e eins og inniskór, en ciabatta þýðir inniskór (slipper) þar sem brauðið þykir í laginu eins og inniskór). 

4. Bakið í ofni í ca 20 mín við 200°c.

Hér er linkur á uppskrift og video um það hvernig gera má Ciabatta.

Smokkfiskssamloka

Ég er ekki mikið fyrir smokkfisk, aðallega því mér finnst ég oft fá seiga bita og það er fátt leiðinlegra en að borða mat sem þarf að tyggja endalaust.

En kærastanum finnst smokkfiskur mjög góður og því ákvað ég í tilefni af afmælisdegi hans að elda eitthvað úr smokkfisk.

Ég rakst á uppskrift í blaði sem var tileinkað samlokum og þar á meðal var smokkfisks samloka sem hljómaði mjög spennandi.  Ég hafði hana til hliðsjónar þegar ég bjó til þessa, sem var rosalega góð og ekkert ólseigt við smokkfiskinn að þessu sinni.

fennel

Galdurinn hér er ferskt fennel og slatti af fersku basil og kóríander ásamt alvöru mæjónesi, ég nota eiginlega aldrei mæjónes, en það var rosa gott hér og ég mæli með því.

smokkfiskur

Smokkfiskssamloka (fyrir 2)

  • Gott baguette eða annað samlokubrauð (ciabatta t.d)
  • 1/2 bolli mæjónes
  • 1-2 msk Sriracha hot sauce
  • 1 tsk mulinn þurrkaður chili
  • 1 msk matarolía og slatta í viðbót til að djúpsteikja úr
  • 2-3 rif hvítlaukur
  • 1/2 græn paprika
  • 2 smokkfiskar (1 pakki)
  • Bjórdeig (1 dl hveiti og slatta af bjór)
  • 1 góður vöndur af  fersku basil
  • Slatta af fersku kóríander
  • Agúrka, skorin langsum í þunna strimla
  • 1/4 fennel, skorið í þunnar sneiðar langsum
  • 1 lime
  • Salt og pipar

Dágóður hráefnislisti, en ekki svo flókin eldamennska.

sriracha sósa

Sósan:Hrærir saman mæjó, sriracha sósu og chiliflögunum.  Setjið í kæli.

Hitið olíu á pönnu, 1 msk eða svo og mýkið papriku sem þið hafið skorið í þunna strimla og svitið hvítlauk. (Hér mætti setja út í 1 msk af fiskisósu, en ég gerði það reyndar ekki).  Takið pönnuna af hellunni og setjið til hliðar.

Hitið olíu í potti til djúpsteikingar

smokkfiskur

Bjórdeig:Setjið dl af hveiti í skál og hellið saman við bjór þar til þið eruð komin með deig sem svipar til vöffludeigs.  Skerið smokkfiskinn í sneiðar svo úr verða hringir.  Dýfið honum í bjórdeigið og djúpsteikið. Það fer eftir hita olíunnar og svona hversu lengi þið þurfið að steikja fiskinn, en ég miðaði við þar til deigið var gullinbrúnt, eða um eina mínútu kannski ein og hálf.

Takið smokkfiskinn úr olíunni og setjið á disk með eldhúspappír.

grænt

Ég skellti mínu baguette í panini grillið.  Svo smyr ég smá mæjósósu á báða helminga brauðsins, skelli þar ofan á paprikunni, fennel, agúrku, kóríander og basil. Toppa þetta með djúpsteikta smokkfisknum. Lime sker ég í þunna litla bita og dreifi þeim ofan á fiskinn. Restina af lime skar ég í báta og bar fram með samlokunni.  Saltið og piprið eftir smekk.

sriracha sósa

Sriracha sósan er sterk chili sósa, ég veit ekki hvort hún fæst hér, en að væri á helst í asísku búðunum. Mér finnst nú samt eins og ég hafi séð hana einhversstaðar, þetta er svo vinsæl sósa.  Í staðin fyrir þessa sósu væri hægt að nota einhverja chilisósu, en þó ekki súrsæta.  Og jafnvel smá dropa af tabaskó ef þið eruð ekki með sterka chilisósu.

Myntusósa úr samtíningi og píta með lambabuffi

Ég skildi eftir pakka af hirsigraut hjá einni sem ég þekki.  Þetta er svona þurrefni í silfruðum poka, ekki ósvipað silfruðu pokunum sem kartöflumúsin kemur í.

Nema það að húsfrúin ákveður að gefa kallinum kartöflumús með kjötbollunum og hellir öllum hirsigrautum í pott og byrjar að hræra.  Henni fannst kartöflumúsin samt eitthvað þynnri og öðruvísi en venjulega, þar til að hún fattaði það að hún hafði notað hirsigrautinn minn í staðin fyrir kartöflumúsin.

Ekki fylgir sögunni hvort eiginmaðurinn hafi borðað hirsigraut með bollunum.

 

Ég gerði pítu með myntusósu og lambabuffi.  Ég notaði afganginn af lambahakkinu síðan ég gerði lachmacun.  Því var hakkið búið að marinerast í kryddinu í ísskáp í 2 daga.  Besta píta sem ég hef gert LEEENGI!

píta

Myntusósan átti bara að vera 3 hráefni, ab mjólk, mynta og smá salt, en mér fannst hún of súr og bara ekki að virka fyrr en ég var búin að hræra saman 10 hráefnum, þá small þetta.

  • 2 dl Ab mjólk
  • 1 lúka fersk mynta
  • 1 tsk púðursykur
  • 1 tsk pistasíublanda frá Yndisauka
  • 3 tsk salthnetublandan frá Yndisauka
  • 7 – 10 cm af agúrku
  • 2-3 tsk sýróp
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 tsk salt
  • Smá pipar

Öllu skellt í mixerinn og hakkað vel saman. Kælt í ísskáp þar til hún er borin fram.

 

Lambabuff (Uppskriftin frá Lachmacun, þannig að ég mæli með að þið minnkið hana um helming til að fá um 4 buff…)

  • 1 kg Lambahakk
  • 1 laukur
  • 1 gul paprika
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 3-4 smátt tómatar úr dós, niðursoðnir. skornir í teninga. Ég nota Roma tómata frá Eden
  • 1/2 meðalsterkur rauður chile.  Smakkið hann áður til að finna út hve mikið þið þurfið.
  • 2 dl fersk söxuð myndta
  • 2,5 dl fersk söxuð steinselja
  • 1 tsk cumin
  • 2-3 tsk turmeric
  • Salt og pipar

Hakkið saman lauk, hvítlauk og papriku.  Setjið lambahakkið í stóra skál og blandið öllu hráefninu vel saman með fingrunum. (Einnig hægt að nota ferska tómata)

Búið til buff og steikið þau á pönnu þar til elduð í gegn.  Mæli með að þið steikið þau ekki of mikið samt.  Það mætti líka henda þeim á grillið.

grænmeti

Borið fram með pítubrauði, agúrku, tómötum, rauðlauk, fetaosti, chili tómatasósu og ferskri steinselju.

Kúbönsk samloka

Mig hefur lengi dreymt um Kúbanska grísasamloku, fannst eitthvað svo girnilegt við hana og lét svo loks verða af því að matreiða eina slíka.  Ég varð ekki fyrir vonbrigðum.

Til að útbúa Kúbanska samloku þarf:
Kúbanskt brauð
Mojo marineraða grísalund
Súrar gúrkur
Góða skinku
Ost
Sinnep (franskt sinnep)


Ég gerði brauðið, sem er sérstakt kúbanskt samlokubrauð sem þarf að byrja á daginn áður en maður ætlar að borða það, en það er
svo best að borða það fljótlega eftir að það er tilbúið.  Það er reyndar alveg lúmskt gott daginn eftir með slatta af smjöri og salti, og alveg dúndurgott að skera það  í þunnar sneiðar og pensla með olíu og krydda og setja í panini grill.

Það þarf að dudda aðeins við þetta brauð, en tíminn sem fer í það er allur þess virði, því þetta er rosa gott brauð.  Svona á  milli þess að vera franskt baguette og ciabatta

Ég nota bolla mælieiningu í þessari uppskrift, en einn bolli er 2,4 dl.

Kúbanskt brauð

“Drulla”
3/4 tsk þurrger
1/3 bolli volgt vatn
1/3 bolli brauðhveiti

Deig
4 1/2 tsk þurrger
1 msk sykur
1 1/2 bolli volgt vatn
3-4 msk jurtafeiti (við stofuhita)
1/2 skammtur “drulla”  (ég þarf að finna eitthvað betra orð en drulla)
1 msk salt
4 – 5 bollar hveiti

Ég setti vatn og ger í skál og leysti upp gerið, bætti svo við hveiti þannig að þetta varð eins og drulla (paste) en ekki eins og deig. Lét það tjilla í skál með plastfilmu í ísskáp í sólarhring. 

Við notum ekki alla drulluna en restin geymist í ísskáp í nokkra daga eða hægt að frysta.

Þannig að daginn eftir, ca sólarhring síðar hélt ég áfram.  Þá setti ég sykur, ger og 3 msk af volgu vatni í skál og lét gerið taka við sér, tekur um 10 mínútur.  Því næst bætti ég við jurtafeiti, vatni og helminginn af “drullunni”
Hrærði þessu saman með trésleif.
Bætti svo við salti og hveiti, einum bolla í einu og hræri vel. (Í höndum eða vél)

Svo set ég deig á hveitistráðan flöt og held áfram að hnoða, þar til að áferðin er orðin teygjanleg. (það er alltaf talað um 6-8 mín, en það hefur reynst mér vel að hnoða bara í 1-2 mín í höndum)

Setjið deig í olíuborna skál með plastfilmu og látið hefast í um 45 mín.

Skiptið deiginu í 4 parta.  Rúllið út í ca 30 cm langa pulsu og rúnið endana.  (þannig að þetta líti svo út eins og lítið baguette) Hafið 2 brauð á bökunarplötu, á bökunarpappír. með ca 10 cm bil á milli þeirra. Breiðið yfir með rökum klút og látið hefast í klst.

Hitið ofn í 170°c

Bakið í um 30 mín.

Kælið aðeins á grind áður en þið skerið það í sundur.
Grísalund með Mojo marineríngu

Grísalund ca 1/2 kg

Marinering:
20 hvítlauksrif
2 tsk salt
1 1/2 bolli appelsínusafi
Safi úr einni sítrónu og einu lime
1 bolli hakkaður laukur
1 msk oregano
1 1/2 bolli góð ólífuolía

Merjið hvítlauk með hvítlaukspressu og hakkið laukinn og setjið svo allt nema ólífuolíu í mixer. Hitið olíu á pönnu og setjið allt mixið í olíuna og látið malla.  Hrærið vel í.

Stingið fullt af götum með hníf eða gaffli í lundina og hellið svo marineríngunni yfir og látið marinerast í 2-3 tíma eða yfir nótt.  (mætti því gera marinerínguna þegar þið gerið “drulluna” og láta standa yfir nótt)

Eldið svo lundina í ofni í um hálftíma á 180°c

Og svo……

súrar gúrkur

Sneiðið súrar gúrkur, sneiðið ostinn, skerið niður lundina.  Svona farið þið svo að:

Skerið nýbakað brauðið þvert, setjið á ost, skinku, súrar gúrkur, grísakjöt og sinnep.  Ef þið eigið panini grill er um að
gera að skella því þar í smá stund, að minnsta kosti er málið að pressa samlokuna vel saman þegar allt er komið á hana.

Þetta er löng uppskrift, en alveg þess virði að prófa þetta, og ef það er afgangur af grísalundinni þá má nýta hana í ýmislegt, meir um það næst.

Salud!

Hunangs hafra kafbátur (Sub)

Það er ótrúlegt hvað maður getur hringsólað á netinu í uppskriftarleit og vaðið úr einu í annað.  Ég byrjaði á að leita að uppskrift að grísalundum fyrir  kúbanska samloku, datt svo niður á víetnamska samloku sem ég þarf að skoða nánar.  Ég endaði á að skoða uppskriftir af sub brauðum sem varð til þess að ég bakaði honey oat subway brauð sem heppnaðist nokkuð vel.

En ég ætlaði að finna uppskrift af kúbönsku samlokubrauði sem ég og gerði en á eftir að prófa.  Grísalundina eldaði ég áðan með marineringu a la cuban sandwich, mínus sandwich en nánar um það allt síðar.
Fyrst ætla ég að koma með uppskriftina að honey oat sub brauðinu.  Þetta var nú ekki nákvæmlega eins og á Subway en mjög gott engu að síður.

subway

Hunangs hafra kafbátur

  • 1 1/2 bolli vatn
  • 1/2 bolli fljótandi hunang
  • 1/3 bolli smjör
  • 5 1/2 bolli hveiti
  • 1/2 bolli Ota hafrar
  • 2 tsk salt
  • 2 tsk þurrger
  • 2 stór egg
  • 1 tsk kalt vatn
  • 1 eggjahvíta
  • 1/2 bolli Ota hafrar

Hitið vatn, hunang og smjör á pönnu.  ATH að það sjóði ekki.

Blandið saman 5 bollum af hveitinu (skiljið hálfan bolla eftir þar til síðar).

Blandið vökva við þurrefni og hnoðið.

Blandið við eggjum og hnoðið.
Blandið nú restinni af hveitinu við deigið og hnoðið.
Hyljið með plasti eða rökum klút og látið hefast í klst.
Hnoðið deigið niður og skiptið því í 8 jafna hluta.
Rúllið því út í um það bil 15 cm langar “kafbáta” og 3-4 cm þykkar.
Setjið 4 báta á bökunarplötu (2 bökunarplötur fyrir 8 báta).
Hyljið með rökum klút eða plasti, látið hefast í 1 klst.
Hitið ofninn í 170°c.

Blandið saman eggjahvítu og 1 tsk köldu vatni og hrærið saman þart til það freyðir.
Penslið ofan á brauðin með eggjahvítunni og stráið svo höfrum ofan á.
Bakið í ofninum í um það bil 20 – 25 mín.
Kælið á grind.

Svo klauf ég kafbátinn, setti ost og beikon og ristaði í ofni í smá stund, bætti svo við því ferska grænmeti sem til var og bjó til mæjónes með sinnepi.  Þannig að úr varð mjög fín samloka.

Þetta er eiginlega í fyrsta sinn sem mér tekst að gera gott brauð en ekki eitthvað sem er svo hart að það megi rota mann með því.