Einföld sulta, frekar en að láta berin rotna inn í ísskáp

by soffiagudrun

Af því að ég er svo brjálæðislega “seasonal”  þá verð ég að koma þessu frá mér. Það er reyndar aðeins of seint í rassinn gripið en ég get þá bara endurbirt þetta að ári liðnu, á réttum tíma, það væri í sirka september. En ég er nú líka bara að hugsa um öll berin sem fólk kaupir út í búð.

ber

Ef þið eigið innflutt fersk ber sem þið hafið keypt á uppsprengdu verði út í búð inn í ísskáp og þau eru að fara að mygla (þrátt fyrir að þið hafið keypt þau í gær) þá er algjör snilld að henda þeim í lítinn pott með sykri og skvettu af vatni og þá eigið þið sultu sem geymist …að minnsta kosti lengur en “fersku” berin.

ber

Sulta

  • Ber
  • Sykur (50% af þyngd berja)

Ég set stundum smá vatn með berjunum, nokkrar matskeiðar til að fá meiri vökva því það gufar svo upp.

Allt sett í pott og leyfið suðu koma upp.  Látið þá malla við meðal hita í 10 mín.  Setjið sultuna í skál og leyfið henni að kólna.  Ef þið viljið hana hana maukaða þá skellið þið henni í blender (eða maukið með töfrasprota).

IMG_0781

Á hverjum degi þegar ég var að sækja stelpuna á leikskólann í haust gekk ég fram hjá fáeinum rifsberjarunnum. Það virtist engin hafa áhuga á að sækja sér ber þannig að ég tók mig til einn daginn og týndi nokkur ber.  Það var nú ekki stór uppskera þetta árið en ég fór sæl heim með að minnsta kosti 100 grömm af rifsberjum. Það tók enga stund að henda þeim í pott með smá vatni og sykri og tíu mínútum seinna var ég komin með stórgóða rifsberjasultu. Einfaldara gæti það ekki verið.