Döðlukaka sem leynir á sér, borin fram með karamellusósu

by soffiagudrun

Vinkona gaukaði þessari uppskrift að mér.  Ég veit að hún er smekkmanneskja á mat þannig að fyrst að hún mælti með henni þá vissi ég að þetta væri uppskrift sem ég þyrfti að prófa.

Og viti menn, þessi kaka, sem ég hélt að væri kannski of hversdagsleg fyrir afmælisboð sómaði sér vel sem eina afmæliskaka dagsins.

Hversdags eða spari, fábær uppskrift.

Döðlukaka með karamellusósu

  • 235 g döðlur
  • 1 tsk matarsódi
  • 120 g mjúkt smjör
  • 5 msk sykur
  • 2 egg
  • 3 dl hveiti
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk vanilludropar
  • 1 1/2 lyftiduft

Hitið ofn í 180°c

Setjið döðlur í pott og látið vatn fljóta yfir.  Leyfið suðu koma upp, slökkvið á hellunni og látið döðlur bíða í pottinum í 3 mín.

Bætið matarsóda saman við döðlurnar í pottinum.

Þeytið saman smjör og sykur

Bætið við eggjum, einu í einu.

Blandið við hveiti, salti og vanilludropum.

Setjið lyftiduft út í og 1/4 af döðlunum (sem þið hafið sigtað upp úr vatninu) og hrærið varlega saman.

Blandið að lokum afganginum af döðlunum út í.

Smyrjið kökuform, tvö lítil eða eitt stórt.

Bakið við 180°c í 30-40 mín.

Karamellusósa

  • 120 g smjör
  • 115 púðursykur
  • 1/2 tsk vanilludropar
  • 1/4 bolli rjómi

Setjið allt í pott og látið suðuna koma upp.  Lækkið hitan og látið krauma í 3 mín.  Hrærið í sósunni allan tímann.